Kolféll fyrir Sikiley

Berglind Guðmundsdóttir naut sín vel á Sikiley, en hún gerði …
Berglind Guðmundsdóttir naut sín vel á Sikiley, en hún gerði þar matar- og ferðaþáttinn Aldrei ein. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir utan gamla Orkuhúsið á Suðurlandsbraut bíður grímuklætt fólk í röð eftir að komast í sýnatöku. Blaðamaður slæst í för, ekki þó í þeim tilgangi að láta prófa sig fyrir veirunni, heldur til að hitta Berglindi Guðmundsdóttur, sem er bæði hjúkrunarfræðingur og matarbloggari. Hún heldur úti síðunni Gulur rauður grænn og salt en þar má finna girnilegar uppskriftir af ýmsu tagi.

Berglind er afar sátt við nýja þáttinn sinn, Aldrei ein. Hún segir blaðamanni frá þessu mikla ævintýri sem hún rataði í mitt í kórónuveirufaraldri.

Töfrar Sikileyjar

Berglind hefur bætt við einum starfstitli í safnið; hún er orðin sjónvarpskona á faraldsfæti, en í fyrrahaust hélt hún í ævintýralega ferð til Sikileyjar ásamt tökuliði. Afraksturinn er fjögurra þátta sería sem nú er sýnd í Sjónvarpi Símans. Hugmyndin að þáttunum kviknaði í kjölfar ferðar sem Berglind fór í árið 2019, en eins og frægt er orðið giftist hún sjálfri sér í þeirri ferð. Hún kolféll fyrir eyjunni.

Mikið var borðað af góðum mat á Sikiley, en eyjarskeggjar …
Mikið var borðað af góðum mat á Sikiley, en eyjarskeggjar eru þekktir fyrir fisk- og pastarétti. Ljósmynd/Aðsend

„Ég upplifði þar svo mikla töfra og hitti svo yndislegt fólk. Þá datt mér í hug að það gæti verið gaman að gera þætti um Sikiley þar sem fólk fengi að kynnast þessum töfrum,“ segir Berglind og segist hafa haft samband við HD-Productions og fengið fyrirtækið til liðs við sig. Sjónvarpi Símans leist vel á hugmyndina og var þá lagt af stað í október 2020. 

Fiskur tvisvar á dag

Hvernig þáttur er Aldrei ein?

„Þetta er eiginlega bæði ferða- og matarþáttur, en ég gef samt engar uppskriftir. Það má segja að þetta séu þættir um Sikiley með matar- og vínívafi. Við hittum margt fólk og þar var alls staðar matur á borðum,“ segir hún og segist hafa bankað upp á hjá fjölmörgum sem hún hafði kynnst í fyrstu ferðinni.

Berglind heimsótti heimamenn sem voru afar gestrisnir.
Berglind heimsótti heimamenn sem voru afar gestrisnir. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er Sikiley þekkt fyrir í matargerð?

„Fisk og pasta. Þeir borða fisk tvisvar á dag og finnst það eðlilegt, á meðan maður er að pína í sig mánudagsýsuna,“ segir hún og hlær.
„Ég spurði nokkra hvort þá langaði alltaf í fisk og svarið var: „Langar mig í fisk? Þetta er ferskt úr hafinu!““ segir Berglind og segir Sikileyinga koma fiski í allan mat.
„Ég fékk svo góðan mat á Sikiley. Ítalía og matur!“ segir Berglind dreymin á svip.

Heimsóknir tengdar mat

„Ég hitti hann Angelo sem rekur veitingastað sem er inni í helli og við elduðum saman eftirrétt. Við gerð þáttanna fórum líka inn í Palermo sem er höfuðborg Sikileyjar og fengum þar leiðsögn um þessa skemmtilega hráu og líflegu fyrrum mafíósaborg. Þarna eru dásamlegir matarmarkaðir þar sem allt er eins ferskt og hugsast getur. Á Sikiley eru jafnframt fornminjar sem taldar eru frá tólf þúsund árum fyrir Krist. Við skoðuðum þær líka og það var ótrúleg upplifun. Við komum víða við en alls staðar tengdum við heimsóknir við mat. Og smá vín,“ segir hún og hlær. 

Þú vaktir mikla athygli um árið þegar þú giftist sjálfri þér. Þú hefur ekki skilið við þig er það?

„Nei,“ segir Berglind og skellihlær.

Það var ekki amalegt að slaka á í hengirúmi á …
Það var ekki amalegt að slaka á í hengirúmi á Sikiley. Ljósmynd/Aðsend

Ítarlegt viðtal við Berglindi er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert