Reiðköttur vindanna

Gullbrandur hefur lifað tímana tvenna, já eða þrenna, því hann hefur verið hesthúsaköttur, eðalprins í Garðabænum og loks sveitaköttur sem stjórnar bæði fólki og dýrum. Gullbrandur veit fátt skemmtilegra en að knúsa hestana, nú eða skella sér á bak.

Það var sólríkur dagur í Biskupstungum þegar blaðamaður barði að dyrum hjá hjónunum á Helgastöðum. Ólafur Gunnarsson og Ólöf Kristjánsdóttir eru nýir eigendur hins óttalausa og uppátækjasama Gullbrands, en áður bjó hann í Mýrunum í Garðabæ hjá blaðamanni, sem er engan veginn hlutlaus þegar kemur að því að fjalla um köttinn.

Gullbrandur hefur tekið ástfóstri við hestinn Jarp og veit fátt …
Gullbrandur hefur tekið ástfóstri við hestinn Jarp og veit fátt betra en að nudda sér upp við hann eða fara á bak. Óli á Helgastöðum fylgist með. mbl.is/Ásdís

Gullbrandur fæddist fyrir sex árum í Biskupstungum, ekki þó á Helgastöðum, og má því segja að hann sé kominn aftur heim í sveitina sína. Hann var þó fljótt gefinn og bjó þá á Kjalarnesi þar sem hann var hafður í hesthúsi og sinnti þar starfi sínu sem músabani. Rúmlega tveggja ára fluttu eigendur hans annað og máttu ekki hafa kött á nýja staðnum. Þá voru góð ráð dýr.

Undirrituð tók því að sér þennan gulbröndótta fress sem þekkti ekki rólegt heimilislíf en vandist því fljótlega og varð prýðilegur köttur, með nokkrum undantekningum þó. Hann átti það nefnilega til að klóra og bíta, fara inn um glugga hjá nágrönnum og valda þar óskunda. Þar var hann óttalegur óþekktarangi; valsaði um borð og stökk hátt upp á hillur og sýndi klærnar ef reynt var að tjónka við hann. Eins og óþekku börnin í gamla daga var sem sagt Gullbrandur sendur í sveit.

Finnst hestalyktin best

Óli og Ólöf hafa nú átt Gullbrand í þrjá mánuði og segja hann afar skemmtilegan kött.

„Við könnumst bara ekkert við þessa óþekkt. Hann bítur aldrei né klórar,“ segir Óli.

„Það kom fljótt í ljós að hann elskar hesta. Ég sá það strax þegar hrossin voru hér heima við að hann var alveg óhræddur að ganga undir þau. Svo kom það seinna að hann fór að sýna þeim ástúð,“ segir Óli.

„Það sem er svo skemmtilegt við Gullbrand er að hann kemur alltaf með hvert sem við förum. Þegar ég fór hér út á tún á gönguskíði þá elti hann mig hring eftir hring,“ segir Ólöf.

„Í gær hitti ég bóndann hér við hliðina á og við spjölluðum þar sem við sátum og hölluðum okkur upp við rúllur. Þá kom hann upp á rúllurnar og fór strax að nudda sér upp við bóndann. Hann vill alltaf vera með,“ segir Óli.

„Ég ætlaði ekki að leyfa honum að sofa uppi í neinum rúmum hér, og alls ekki í mínu rúmi. En nú sefur hann alltaf ofan á sænginni hjá syni okkar Gabríel. Og ég horfi bara fram hjá því,“ segir Ólöf og hlær.

„Hann er kannski ekkert að kássast í manni en hann er samt þannig við mig að þegar ég leggst í sófann kemur hann og leggst á bringuna á mér,“ segir Óli.

„Þegar Óli er búinn að vera í hesthúsinu og kemur inn og leggst í sófann, kemur hann og nuddar sér upp við skeggið á honum. Það er svo sætt,“ segir Ólöf og hlær.

„Honum finnst hestalykt best af öllu!“

Heldur bænum músalausum 

Við ákveðum að fá okkur göngutúr niður á tún til hestanna. Gullbrandur er fljótur að sjá að eitthvað spennandi er að fara að gerast og eltir okkur en er samt ekkert að flýta sér. Hann nartar í strá á leiðinni, gjóar augunum á hænurnar og sýnir hundunum hver ræður. 

„Hann nuddar sér mikið upp við þennan brúna, en hinn reynir að smala honum. Ef honum finnst hann ganga of langt slær hann aðeins í trýnið á honum með loppunni,“ segir Óli.

Klói virðist ekki par sáttur við Gullbrand sem hefur tekið …
Klói virðist ekki par sáttur við Gullbrand sem hefur tekið stjórnina. mbl.is/Ásdís

Á hann sér uppáhaldshest?

„Já, það er hann Jarpur, enda er hann rólegastur. Svo þekkir hann Golu, því hún er úr hesthúsinu þar sem hann ólst upp fyrst,“ segir Óli og segir Gullbrand mikinn klifrara og finnst hann gjarnan uppi á þaki á hesthúsinu. 

Einnig er hann afar duglegur að veiða mýs.

 „Við vorum í vandræðum með mýs hér, sem fóru meðal annars inn í skápa, en nú sést hér ekki mús. Hann lék sér að einni hér um daginn og gleypti hana svo í einum tveimur bitum.“ 

Át dýru þorskhnakkana

Ólöf segir köttinn una sér vel í sveitinni.

„Hann er alltaf úti að vesenast eitthvað, veiða mýs og leika sér,“ segir Ólöf.

„Hann fer oft inn í hæsnahúsið og hænurnar eru stundum smeykar við hann. En hann gerir ekkert við þær,“ segir Ólöf.

„Hann stríðir líka oft hundunum.“

Óli segir Gullbrand fordekraðan og að hann heimti fisk í öll mál.

„Þegar ég kem fram á morgnana klukkan sex kemur hann og biður mig um fisk,“ segir Óli og Ólöf bætir við að sér hafi nú ekki litist á blikuna þegar hún sá að frystikistan var tóm.

„Óli var búinn að taka bestu bitana sem eru pakkaðir fyrir veitingahús, ægilega fínir þorskhnakkar, og sjóða þá ofan í köttinn. Mér fannst þá nóg um,“ segir Ólöf og hlær.

Elskar sveitta hestana

Ást Gullbrands á hestum óx með hverjum deginum og tóku Óli og Ólöf eftir því að hann vildi bæði knúsa þá og fara á bak. Um daginn prófuðu þau að setja hann á bak Jarpi og það fannst Gullbrandi skemmtilegt.

Gullbrandur hoppar óhræddur á milli hestanna á Helgastöðum.
Gullbrandur hoppar óhræddur á milli hestanna á Helgastöðum. mbl.is/Ásdís

Hann hélt sér í á meðan hesturinn var teymdur upp að húsi, alsæll. Hann kunni greinilega vel við heitan og sveittan hestinn og nuddaði sér upp við hann þar sem hann sat á baki eins og reiðköttur vindanna. Að sjálfsögðu var reiðtúrinn festur á myndband sem má sjá hér að ofan. Það er sjón að sjá!

Ítarlegra er fjallað um ævintrýri Gullbrands í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert