Setja 70 milljónir í uppbyggingu

Landverðir munu sinna hluta af þeim verkefnum sem viðbragðsaðilar hafa …
Landverðir munu sinna hluta af þeim verkefnum sem viðbragðsaðilar hafa sinnt hingað til án þess að ætlunin sé að landverðir gangi í önnur störf viðbragðsaðila eða taki við hlutverki þeirra. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Rúmum 70 milljónum króna verður varið til innviðauppbyggingar og landvörslu við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall samkvæmt tillögum ferðamálaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, sem fjallað hefur verið um í ríkisstjórn.

Ferðamálaráðherra hefur ákveðið að fela Framkvæmdasjóði ferðamannastaða að veita allt að 35 milljónum til lagningar göngustíga að gosstöðvunum. Rafstrengur verður lagður í stígana til þess að tengja megi þar búnað á borð við öryggismyndavélar og gasmæla. Þetta er til viðbótar 10 milljóna framlagi úr framkvæmdasjóðnum sem ráðherra hafði áður beitt sér fyrir til að fjármagna þá innviði sem byggðir voru upp til bráðabirgða. Fyrirhugað er að semja við landeigendur um þessar framkvæmdir og verður þar gert að skilyrði að almenningur hafi fullan og gjaldfrjálsan aðgang að þeim innviðum sem um ræðir. 

Ráða landverði til starfa

Umhverfisstofnun, að beiðni umhverfis- og auðlindaráðherra, mun ráða landverði til að hafa eftirlit með umgengni á svæðinu og upplýsingamiðlun tímabundið. Þá munu landverðir sinna hluta af þeim verkefnum sem viðbragðsaðilar hafa sinnt hingað til, án þess að ætlunin sé að landverðir gangi í önnur störf viðbragðsaðila eða taki við hlutverki þeirra. Kostnaður við landvörslu á svæðinu til 31. ágúst er metinn á um 35 milljónir króna. Tillagan byggir á mati Umhverfisstofnunar í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hún er sömuleiðis í samræmi við tillögu starfshóps um uppbyggingu á svæðinu sem stýrt er af ferðamálastjóra og í sitja fulltrúar landeigenda, Grindavíkurbæjar, Áfangastaðastofu Suðurnesja, Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurnesjum.

„Til er orðinn vinsæll áfangastaður ferðamanna til fyrirsjáanlegrar framtíðar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra á vef Stjórnarráðsins. „Innviðir og aðstaða þurfa að þola álag ferðamanna allan ársins hring. Stuðla þarf að öryggi ferðamanna og upplýsingamiðlun til þeirra auk þess sem huga þarf að aðgangsstýringu. Þessi uppbygging er liður í því.“

„Í tíð þessarar ríkisstjórnar höfum við lagt áherslu á að efla og styrkja landvörslu um land allt. Landverðir skipta miklu máli í móttöku og leiðbeiningu gesta á náttúruverndarsvæðum og vinsælum ferðamannastöðum. Þeir eru eins konar vitar í landslagi sem vísa okkur leið, upplýsa gesti um hvernig komast megi með öruggustum hætti um svæðið og njóta þess í leiðinni,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert