Gróðurlendið sem brann í sinueldunum í Heiðmörk í vikunni sést vel á gervitunglamyndum USGS og NASA sem teknar voru fyrr í dag. Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti myndina á Facebook fyrr í kvöld.
Á myndinni má sjá rauðbrúnan blett sem sýnir þá 54 hektara sem brunnu í Heiðmörk.
Enn er eldhætta á svæðinu en ekki hefur rignt á sunnan- og vestanverðu landinu síðustu daga. Engin rigning er í kortunum fyrr en á fimmtudaginn.
Heiðmörk opnaði aftur á fimmtudag en reykingar og hvers kyns meðferð elds eða eldfæra er bönnuð í Heiðmörk á meðan veður er jafn þurrt og nú er. Gestir friðlandsins eru hvattir til að hugsa vel um náttúruna.