Tíu ferðamenn í varðhaldi á vellinum

Tíu ferðamenn verða sendir heim.
Tíu ferðamenn verða sendir heim. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tíu ferðamenn sem komu til landsins í gær frá Barcelona eru nú í varðhaldi á Keflavíkurflugvelli, þar sem þeir uppfylla ekki skilyrði fyrir komunni.

Vísir greinir frá þessu. Er það á grundvelli reglugerðar sem leggur bann við ónauðsynlegum ferðum til landsins út maímánuð, til þess að sporna við útbreiðslu veirunnar.

Þetta staðfestir Sigurgeir Ómar Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, í samtali við mbl.is.

Hafa ferðamennirnir andmælt þessu?

„Þau eru ekki hress,“ svarar Sigurgeir.

Verða ferðamennirnir sendir aftur heim og sér stoðdeild ríkislögreglustjóra um þá framkvæmd. 

Stærsti hópurinn hingað til

Nokkrir hópar hafa verið stöðvaðir á landamærunum í krafti þessara reglna en þetta er stærsti hópurinn hingað til að sögn Sigurgeirs.

Spánn fellur undir hááhættusvæði samkvæmt skilgreiningu yfirvalda.

Útlendingum, sem koma frá eða dvalið hafa í meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum á svæði þar sem 14 daga nýgengi smita er yfir 700 á hverja 100.000 íbúa eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið, er óheimilt að koma til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert