Tvö heimilisofbeldismál til lögreglu

Tvö heimilisofbeldismál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Í öðru þeirra var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem hótaði að ganga í skrokk á konu.

Í hinu tilkvikinu var tilkynnt um yfirstandandi heimiliserjur, mikil öskur og læti. Lögreglan kom á vettvang og var málið afgreitt sem heimilisofbeldi að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mikið var um hávaðaútköll á öllum svæðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.

Í nótt var tilkynnt um meðvitundarlausa manneskju í miðborginni. Þegar lögregla kom á vettvang varð ljóst að um mikla ölvun væri að ræða og farið með viðkomandi á bráðamóttöku Landspítalans með sjúkrabifreið. Síðdegis hafði síðan verið haft samband við lögreglu vegna drukkins manns sem veittist að fólki á Laugaveginum.

Sjúkraflutningamenn óskuðu eftir aðstoð lögreglu í nótt vegna sjúklings sem væri að veitast að þeim. Þegar lögregla kom á vettvang var ástandið orðið rólegt.

Á fjórða tímanum í nótt var tilkynnt til lögreglu um samkvæmishávaða í Norðlingaholti og lofaði húsráðandi að lækka þegar lögregla kom á vettvang. 

Haft var samband við lögreglu á ellefta tímanum í gærkvöldi vegna unglingapartýs við Hvaleyrarvatn en einnig var tilkynnt um að fólkið væri með opinn eld við vatnið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert