Fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 50 manns, sund- baðstaðir og líkamsræktarstöðvar mega taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta, hámarksfjöldi þátttakenda í íþróttum og sviðslistum verður 75 í hverju hólfi eða á sviði og hámarksfjöldi gesta á sitjandi viðburðum fer úr 100 í 150 manns á miðnætti.
Þá verður afgreiðslutími veitingastaða lengdur um klukkustund. Einnig verða ýmsar tilslakanir gerðar á skólastarfi. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið þessar breytingar í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þær taka gildi frá og með mánudeginum 10. maí og eiga að gilda í rúmar tvær vikur eða til miðvikudagsins 26. maí.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra kemur fram að ýmsar aðgerðir á landamærum sem gripið var til vegna hópsýkinga, sem í upphafi voru raktar til ferðamanna á landamærum sem ekki héldu reglur um sóttkví og/eða einangrun, hafi skilað árangri.
Undanfarna daga hafi fá smit greinst á hverjum degi utan sóttkvíar. Því megi ætla að tekist hafi að ná utan um fyrrgreind hópsmit þótt ekki sé hægt að segja að veiran sem veldur Covid-19 hafi verið upprætt úr samfélaginu.
Smit sem nú er í Skagafirði er ekki rakið til fólks sem ekki hélt reglur um sóttkví eða einangrun.
Hámarksfjöldi nemenda í hverju rými í grunn-, framhalds- og háskólum verður 100, í stað 50 áður. Foreldrar og aðrir aðstandendur mega koma inn í skólabyggingar. Blöndun hópa innan sama skóla verður heimil í sundi og íþróttum í grunnskólum. Blöndun nemenda milli rýma verður heimil í háskólabyggingum. Viðburðir á vettvangi skóla verða heimilaðir, með þeim takmörkunum sem almennt gilda.