Á von á því að smitum muni fjölga

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra.
Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra. mbl.is/Sigurður Bogi

Tæplega tvö hundruð kórónuveirusýni hafa verið tekin í Skagafirði og nágrenni í dag. Nær það bæði til fólks í sóttkví en eins þeirra sem vildu komast í sýnatöku vegna einkenna, sem og markvissrar skimunar í kringum leikskóla á Sauðárkróki.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, á von á því að smitum muni fjölga næstu daga í ljósi víðtækrar skimunar. Hann segir að um 400 manns á svæðinu séu í sóttkví en þeim hefur fjölgað hratt að undanförnu. Því til viðbótar sé margt fólk í sjálfskipaðri sóttkví.

Alls hafa átta kórónuveirusmit greinst í héraðinu frá því um helgina. Meðal þeirra var starfsmaður á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki, sem greindist á laugardag, en hann hafði skömmu áður verið í návígi við sjúklinga. Smit hafa þó ekki borist inn á sjúkrahúsið.

Við sjúkrahúsið á Sauðárkróki. Um 200 sýni voru tekin í …
Við sjúkrahúsið á Sauðárkróki. Um 200 sýni voru tekin í Skagafirði í dag. Ljósmynd/Feykir

Í kjölfar smitanna var tekin ákvörðun um að herða á sóttvarnareglum á svæðinu og þær tilslakanir sem tóku gildi annars staðar á landinu á mánudag gilda ekki um Skagafjörð.  

Sundlaugum, verslunum og íþróttamiðstöðvum hefur verið lokað út vikuna og leikskólar aðeins opnir fyrir börn starfsfólks í framlínu. 

„Samfélagið hefur staðið mjög þétt saman í þessu og það er búið að loka nánast öllu sem hægt er að loka,“ segir Stefán og bætir við að reynt sé með þessu að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert