Verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) gegn Bláfugli sem hófust í febrúar á þessu ári eru lögmætar. Þetta er niðurstaða Landsréttar, en með úrskurði sínum staðfestir dómurinn fyrri úrskurð héraðsdóms um að staðfesta ákvörðun sýslumanns sem hafnaði að setja lögbann á aðgerðirnar.
Ótímabundið verkfall félagsmanna FÍA sem störfuðu hjá Bláfugli, hófst 1. febrúar, en flugfélagið hafði í nóvember ráðið tíu nýja flugmenn sem sjálfstætt starfandi verktaka og í desember sagt átta flugstjórum og tveimur flugmönnum sem höfðu starfað hjá félaginu. Hafa sjálfstætt starfandi verktakarnir flogið vélum Bláfugls síðan að því er fram kemur í úrskurðinum. FÍA taldi uppsagnirnar ólögmætar og hófst verkfall sem fyrr segir í febrúar.
Í úrskurði Landsréttar segir að í íslenskum vinnumarkaðsrétti sé sú regla í gildi að þegar kjarasamningi sé sagt upp eða hann renni út fari í meginatriðum áfram um réttindi og skyldur samningsaðila eftir eldri samningi meðan enn er ósamið og verkfall ekki skollið á. Út frá því telur FÍA að forgangsréttarákvæði félagsmanna FÍA sé enn í gildi í lögskiptum við Bláfugl. Í ákvæðinu segir að flugmenn Bláfugli skyldu hafa forgang að þeim flugverkefnum sem um væri að ræða á hverjum tíma á vegum fyrirtækisins. Ráðning eða leiga flugmanna til Bláfugls, sem ekki væru félagar í FÍA, skyldi ekki á neinn hátt tefja fyrir stöðuhækkunum og öðrum framgangi fastráðinna flugmanna, sem væru félagar í FÍA, né heldur leiða til uppsagna þeirra.
Segir í úrskurði Landsréttar að Bláfugl hafi ekki upplýst um ráðningar- og starfskjör þeirra flugmanna sem ráðnir hafi verið sem sjálfstætt starfandi verktakar. Því liggi ekki fyrir hvort þeir teljist verktakasamningar eða hvort þeir hafi öll einkenni vinnusamnings. „Verður sóknaraðili [Bláfugl] að bera hallann af því að hafa ekki upplýst um þessi atriði með framlagningu gagna,“ segir í úrskurðinum.
Þá segir jafnframt að það tilheyri verkfallsrétti að fólk eða félög í lögmætu verkfalli geti varist með friðsamlegum aðgerðum. Því hafi aðgerðir FÍA til að verja verkfallið verið löglegar, en í úrskurðinum segir að félagsmenn FÍA hafi staðið fyrir utan haftasvæði flugverndar við flugstöðina í Keflavík 1. Febrúar og beitt fortölum gagnvart þeim flugmönnum sem voru mættir til starfa. Þá hafi verkfallsverðir brugðið á það ráð að berja á rúður og þeyta bílflautur og verið með háreysti við svæðið með það að markmiði að hindra nauðsynlega hvíld flugmanna Bláfugls sem mættir voru til starfa, en þeir vörðu tíma milli flugferða á öryggissvæði flugstöðvarinnar.