Fæðingarheimili Reykjavíkur opnað á ný

Edythe, Emma, Embla og Stefanía endurvekja hið fornfræga Fæðingarheimili Reykjavíkur.
Edythe, Emma, Embla og Stefanía endurvekja hið fornfræga Fæðingarheimili Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru margir sem eiga góðar minningar þaðan,“ segir Emma Marie Swift ljósmóðir og einn aðstandenda Fæðingarheimilis Reykjavíkur sem áformað er að taki til starfa síðar á árinu eftir langt hlé.

Fæðingarheimilið var rekið á horni Þorfinnsgötu og Eiríksgötu á árunum 1960-1995. Lengst af var reksturinn á forræði Reykjavíkurborgar en heyrði undir Borgarspítalann síðustu árin. Ekki er þó um að ræða að Reykjavíkurborg ætli sér að blanda sér í þennan rekstur á ný. Þvert á móti og segja má að klippt hafi verið á naflastrenginn í vikunni þegar samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur að afsala sér nafninu góða.

Við því tekur Emma Marie ásamt Emblu Ýri Guðmundsdóttur og með þeim í teymi eru Edythe L. Mangindin og Stefanía Ósk Margeirsdóttir. „Næsta skref er að finna húsnæði sem hentar,“ segir Emma.

Höfða til erlendra kvenna

„Við viljum bæta samfellda þjónustu fyrir konur í barneignarferlinu,“ segir hún um hugmyndafræðina á bak við Fæðingarheimili Reykjavíkur. Hugmyndin er að fólk geti leitað til Fæðingarheimilisins og fjölskyldan þekki sitt ljósmæðrateymi. Fólki standi til boða meðgönguvernd, fæðingarþjónusta og heimaþjónusta.

„Ef verðandi foreldrar þekkja þá sem annast þau myndast traust og öryggi og fyrir vikið gengur fæðingin betur,“ segir Emma.

Fæðingarheimili Reykjavíkur var rekið fram til 1995.
Fæðingarheimili Reykjavíkur var rekið fram til 1995.

Að auki verður boðið upp á annars konar þjónustu á Fæðingarheimilinu, svo sem ýmis námskeið og fræðsluhópa auk ráðgjafar um getnaðarvarnir.

„Við leggjum líka áherslu á að ná til erlendra kvenna á Íslandi. Þær eru um 15% þeirra sem fæða börn á Íslandi. Þess vegna er heimasíðan okkar öll bæði á íslensku og ensku. Við vonumst líka til að geta boðið upp á námskeið á pólsku ef við getum fundið einhvern sem getur sinnt því,“ segir Emma en hægt er að kynna sér fyrirhugaða starfsemi Fæðingarheimilis Reykjavíkur á heimasíðu þess.

Fréttin birtist í Morgunblaðinu 8. maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert