Fyrirtæki var í dag dæmt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða fyrrum starfsmanni sínum vangoldin laun fyrir tímabil þar sem starfsmaðurinn var óvinnufær vegna vandamála sem upp komu í kjölfar brjóstnámsaðgerðar.
Fyrirtækið réð starfsmanninn í hlutastarf í verslun sinni í ágúst 2015. Þar starfaði hann þar til honum var sagt upp störfum með bréfi 30. janúar 2020. Var uppsögnin rökstudd með vísan til samdráttar og bágrar frammistöðu starfsmannsins. Óskað var eftir því við starfsmanninn að hann ynni út uppsagnarfrest. Í bréfinu kemur einnig fram að starfsmaðurinn hafi um miðjan janúar 2020 óskað eftir tveggja mánaða leyfi, þ.e. í febrúar og mars 2020, og vinnuveitandinn fallist á þá beiðni, en þó þannig að um launalaust leyfi verði að ræða.
Starfsmaðurinn byggði á því fyrir dómi að hann hafi orðið óvinnufær 4. febrúar 2020 til 4. apríl sama ár. Fyrirtækinu hafi borið að greiða honum laun á því tímabili.
Fyrir dómi mótmælti vinnuveitandinn því að starfsmaðurinn hafi talist óvinnufær vegna sjúkdóms í skilningi laga og kjarasamninga. Lýtaaðgerð starfsmannsins hafi ekki verið aðkallandi og nauðsynleg til að draga úr eða eyða afleiðingum sjúkdóms sem fyrirsjáanlegt sé að leiði til óvinnufærni. Hvorki í læknisvottorði lýtalæknis starfsmannsins né í öðrum gögnum málsins hafi komið fram hvaða sjúkdómur hafi orsakað óvinnufærni hans.
Fram kemur í vottorði geðlæknis fyrir dóminum að starfsmaðurinn hafi fæðst í kvenmannslíkama en upplifað sig í röngum líkama frá kynþroska. Starfsmaðurinn hafi verið í samskiptum við transteymi Landspítala og fengið hormónameðferð með testósteróni. Nokkru síðar hafi hann farið í brjóstnámsaðgerð og vegna vandamála sem upphafi komið í aðgerðinni hafi hann verið frá vinnu um nokkurt skeið í kjölfarið. Þá segir í vottorði geðlæknis að brjóstnám sé óaðskiljanlegur hluti transferils starfsmannsins, rétt eins og hormónameðferð, greining og viðtöl.
Loks kemur fram að læknirinn staðfesti að veikindaforföll stefnanda hafi verið vegna fyrrgreinds brjóstnáms og fylgikvilla eftir það, sem séu óaðskiljanlegur hluti transmeðferðar hans. Þessi meðferð sé að mestu leyti greidd af Sjúkratryggingum Íslands, enda um staðfestan sjúkdóm að ræða sem falli undir ákveðin greiningarviðmið og hafi sjúkdómsnúmerið F64.0 í greiningarkerfum geðlækninga.
Fram kemur í dóminum að starfsmaðurinn hafi sýnt nægilega fram á það með vottorðum lækna og framburði þeirra fyrir dómi að hann hafi verið haldinn sjúkdómi í skilningi læknisfræðinnar í aðdraganda brjóstnámsaðgerðarinnar. Þá var einnig talið sýnt fram á það að aðgerðin hafi verið nauðsynleg og aðkallandi.