„Færeyingar fagna því að hitta loksins erlenda ferðamenn. Finnst þá ánægjulegt að Íslendingar séu á ferð,“ segir Gísli Jafetsson. Hann er fararstjóri í 50 manna leiðangri á vegum Ferðaskrifstofu eldri borgara til Færeyja.
Hópurinn hélt utan í síðustu viku með Norrænu og fór í siglingunni utan í próf vegna kórónuveirunnar. Seinni skimun var svo tekin á laugardag á hótelinu í Þórshöfn hvar hópurinn býr. Enginn reyndist smitaður.
Covid-19 hefur tekið fyrir ferðir í um eitt og hálft ár og Færeyjaleiðangurinn nú er fyrsta hópferð Íslendinga til útlanda í langan tíma, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.