„Það er útlit fyrir að ástandið skáni,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um úrkomuspá og eldhættu vegna mikilla þurrka undanfarið.
„Núna er útlit fyrir að alla vega á fimmtudag og föstudag og jafnvel um helgina verði skúrir á Suður- og Vesturlandi sem ætti að bæta ástandið eitthvað.“
Ekki er útlit fyrir mikla úrkomu. „Þetta ætti að bleyta jarðveg eitthvað svo vonandi fari að draga úr eldhættu, það verður bara að koma í ljós hvort að það nái inn alls staðar. Þetta er svo rosalega köflótt,“ segir Birgir Örn.
Þurrkur hefur verið sunnan- og vestanlands í lengri tíma og hafa nokkrir gróðureldar kviknað síðustu daga. Stór sinubruni varð í Heiðmörk í síðustu viku sem talinn er hafa farið yfir 56 hektara svæði.