Miðla upplýsingum eftir ýmsum leiðum

Eldur logaði í Guðmundarlundi í dag. Hér má sjá slökkviliðsmenn …
Eldur logaði í Guðmundarlundi í dag. Hér má sjá slökkviliðsmenn athafna sig á vettvangi. mbl.is/Árni Sæberg

Upplýsingamiðlun til ferðamanna er alltaf áskorun að sögn Rögnvaldar Ólafssonar, aðalvarðstjóra almannavarnadeildar. 

Undanfarna viku hafa gróður- eða sinuelda kviknað víða í grennd við höfuðborgarsvæðið og var óvissustigi almannavarna líst yfir í síðustu viku. Rögnvaldur segir að ýmsar leiðir séu farnar í upplýsingagjöf í tengslum við hættu á gróðureldum. Almannavarnir hafi meðal annars bent á heimasíðuna gróðureldar.is, auk upplýsinga sem finna má á heimasíðu almannavarna um viðbrögð og mótvægisaðgerðir við gróðureldum. 

„Síðan er líka sumstaðar á Suður- og Vesturlandi verið að nýta boðunarkerfi neyðarlínunnar. Það virkar þannig að þegar þú keyrir inn á ákveðið svæði er hálfgerð ósýnileg girðing og þú færð boð um að það sé hætta á gróðureldum og fólk er beðið um að fara varlega með eld. Þetta er til dæmis þannig í Skorradalnum,“ segir Rögnvaldur. 

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Slík skilaboð eru send út á þremur tungumálum. 

„Ef þú ert með síma frá landi utan Íslands færðu þessi skilaboð á ensku og ef þú ert með síma sem er skráður í Póllandi færðu þau á pólsku. Við sendum þessi boð út á þremur tungumálum, á þessum svæðum þar sem búið er að draga þessi svæði. Það eru umdæmin sjálf sem draga þessi svæði og við höfum síðan milligöngu um að þessi boð séu send út. Það er ekkert mál að gera þetta á fleiri stöðum ef þess er óskað,“ segir Rögnvaldur. 

Áskorun að ná til ferðamanna

Þá segir Rögnvaldur að víða séu á vorin sett upp skilti sem vara við hættu á gróðureldum. Slíkt hafi til að mynda oft verið gert í Skorradal. 

Hann segir þó upplýsingamiðlun til ferðamanna alltaf vera ákveðna áskorun fyrir almannavarnir. Ferðamenn séu þó oft vel upplýstir um gróðurelda og hættu á þeim. 

Hér sést hversu umfangsmikil eyðing var af völdum gróðureldsins í …
Hér sést hversu umfangsmikil eyðing var af völdum gróðureldsins í Heiðmörk 4. maí. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Margir þeirra ferðamanna sem koma hingað eru að koma frá svæðum þar sem þetta er yfirleitt víðtækt vandamál. Víða í Evrópu og Bandaríkjunum er þetta þekkt áskorun og fólk þaðan veit oft svipa mikið um gróðurelda og við vitum um jarðskjálfta og eldgos,“ segir Rögnvaldur. 

Útlit er fyrir úrkomu á fimmtudag og föstudag eftir mikla þurrka undanfarið. Rögnvaldur segir að rætist spáin gæti það haft áhrif á óvissustig sem er í gildi vegna eldhættu. 

„Við bíðum og vonum að það komi einhver úrkoma sem gæti breytt þessu fyrir okkur, en á meðan það er ekki þá verður óbreytt ástand reikna ég með,“ segir Rögnvaldur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert