Brennisteinsmóðan, sem fylgir eldgosinu í Geldingadal, sást vel á LANDSAT-8-gervitunglamynd (NASA & USGS) sem var tekin í gær. Móðan (SO2) sker sig úr öðru skýjafari með ákveðnum bláma. Það sérstæða við myndina er að skuggarnir af brennisteinsmóðunni skera sig einnig frá öðrum skuggum.
Þetta kemur fram í færslu sem eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti í dag.
„Skuggarnir eru gulir – og lesendur kannast örugglega við þennan gulleita blæ sem einkennir brennisteinsmóðuna. Móðan varpar sem sagt gulleitum skuggum á landið þegar sólin skín í gegnum hana. Meðfylgjandi er einnig ljósmynd, tekin „í hina áttina“ – þ.e. af jörðu í átt til sólar, sem sýnir þetta litaspil. Sem sagt, móðan síar bláa litinn úr sólarljósinu og þá verður gula ljósið eftir,“ segir í færslunni.
Brennisteinsmóðan, sem fylgir eldgosinu í Geldingadal, sást vel á LANDSAT-8 gervitunglamynd (NASA & USGS) sem tekin var...
Posted by Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands on Mánudagur, 10. maí 2021