Ræktendur iðnaðarhamps á Íslandi eru þessa dagana að setja niður fræin fyrir uppskeru sína en búist er við að ræktaðir verði 150 hektarar í ár.
„Síðasta sumar var fyrsta sumarið síðan 1969 sem við máttum rækta hamp. Þá voru ræktaðir 30 hektarar. Núna erum við að rækta fimmfalt meira magn en síðasta sumar,“ segir Sigurður Hólmar Jóhannesson, formaður Hampfélagsins í umfjöllun um ræktunina í Morgunblaðinu í dag.
Aðspurður hverjir séu að rækta iðnaðarhamp á Íslandi, segir Sigurður að nokkrir stórir aðilar komi þar að, en einnig aðrir sem rækta minna. „Svo erum við með bændur sem rækta kannski frá hálfum hektara og upp í 4-5 hektara. Þá er fullt af venjulegu fólki að rækta í garðinum heima hjá sér, einn eða tvo fermetra. Í öllum landsfjórðungum er verið að rækta hamp.“