Greiðlega gekk að slökkva gróðureld í gær, sem upp kom í hrauninu sem skilur að Garðabæ og Hafnarfjörð, það er rétt norðan við slökkvistöðina við Skútahraun.
Tiltækt lið notaði klöppur og vatn við slökkvistarfið sem tók ekki langan tíma. Slökkvilið á sunnan- og vestanverðu landinu eru vel á verði nú vegna hættu á eldum í gróðri.
Þar hafa sjónir sérstaklega beinst að Skorradal sem við núverandi aðstæður eftir langvarandi þurrviðri er lýst sem púðurtunnu. Vætu er þörf, sem þó er ekki í kortum allra næstu daga, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.