Slökkviskjóla sem Landhelgisgæslan hefur til umráða er ónýt eftir síðustu notkun við slökkvistarf á sinubruna í Heiðmörk 4. maí síðastliðinn. Til skoðunar er að fá lánaða slökkviskjólu frá Svíþjóð, en óvissustig almannavarnadeildar er í gildi vegna gróðureldahættu.
Fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum RÚV.
Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri almannavarnadeildar, segir í samtali við mbl.is að nú hafi komið í ljós að ekki verði hægt að gera við skjóluna eftir síðustu notkun í Heiðmörk. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug þá 17 ferðir og sótti vatn úr nærliggjandi vötnum til að dreifa yfir eldinn með skjólunni.
Það sé áhyggjuefni að hafa ekki til umráða skjólu nú þegar hætta er á gróðureldum sem hafa verið tíðir síðustu viku vegna mikilla þurrka.
„Þeir sem bera hitann og þungann af því að berjast við elda eru náttúrulega slökkviliðin og þeirra starf er býsna erfitt, þetta hefur verið mikilvægt hjálpartæki í baráttunni við gróðurelda. Þetta sýndi sig í gróðureldunum á Mýrum á sínum tíma hvað þetta getur verið erfitt og það breytti miklu að fá þessa skjólu,“ segir Rögnvaldur og vísar þar til sinuelda sem komu upp á Mýrum í mars 2006 og geisuðu með hléum í þrjá sólarhringa.
„Það er verið að vinna að því að fá lánaða skjólu þangað til það er hægt að koma þessu aftur á viðeigandi stað, hvernig sem það verður gert,“ segir Rögnvaldur, en vonir eru bundnar við það að fá skjólu lánaða frá Svíþjóð. Hvenær slík lánsskjóla kæmi til landsins liggur ekki fyrir, en Rögnvaldur vonar að málið skýrist frekar á næstu dögum.
Þá segir Rögnvaldur að koma verði í ljós hvort að önnur skjóla verði keypt í framhaldinu.
„Það þarf alltaf að fjármagna svona hluti, það þarf að fá það fyrst í gegn og svo tekur þetta alltaf tíma. Þetta er ekki vara sem liggur bara á lager þannig það tekur einhverjar vikur að fá svona á staðinn ef maður ætlar að kaupa,“ segir Rögnvaldur.
Ekki hefur verið þörf á slökkviskjólu vegna gróðurelda á Laugarnesi í gærkvöldi og í Guðmundarlundi fyrr í dag. Rögnvaldur segir þó að slökkviskjólu þurfi til að slökkva gróðurelda í grennd við gosstöðvarnar í Geldingadölum.
„Það eru líka gróðureldar við eldstöðvarnar á Reykjanesi, það er eitthvað sem við hefðum helst viljað geta slökkt í, allavega það sem er komið út fyrir áhrifasvæðið á gosinu, en það er býsna erfitt að komast þarna að. Það er eiginlega alveg ómögulegt að koma vatni þarna að, þetta þyrfti allt að vinnast í höndum og það þyrfti tæki til að rjúfa jarðveg og fleira. Eina sem myndi koma að gangi þarna væri úr lofti,“ segir Rögnvaldur.