Stefnt er að opnun nýs þjóðgarðs á Vestfjörðum 17. júní

Nú þegar hefur orðið mikil uppbygging við Dynjanda.
Nú þegar hefur orðið mikil uppbygging við Dynjanda. mbl.is/Sigurður Bogi

Stefnt er að opnun nýs þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum 17. júní næstkomandi. Þetta kom fram í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Höllu Signý Kristjánsdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, á þingfundi í dag.

Sú dagsetning var nefnd að ósk heimamanna í tengslum við fæðingarstað Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og segir ráherra að verið sé að vinna að því að uppfylla þá ósk.

Svæðið sem þjóðgarðurinn nær til verður m.a. til Dynjanda, Geirþjófsfjarðar, Vatnsfjarðar, Surtarbrandsgils og Hrafnseyrar. Þá segir ráðherra að margt hefur þegar verið gert á þessu svæði, þá sérstaklega á Dynjandasvæðinu þar sem uppbygging hefur kostað 200-250 milljónir.

Fyrir áframhaldandi uppbyggingu þurfi hins vegar að koma fram greining á hver þörfin sé og er Vestfjarðarstofa að vinna að þeirri greiningu. „Áætlun um hvað uppbygging þarna muni kosta mun liggja til grundvallar ákvörðun um hvernig þetta verður fjármagnað,“ segir Guðmundir Ingi. Sú greining ætti að liggja fyrir í maí mánuði samkvæmt ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka