Slysið í Ártúnsbrekkunni í morgun þegar tveir strætisvagnar rákust saman varð þegar annar vagninn þurfti að hægja á sér vegna vinnuvélar sem var á götunni.
Hinn náði ekki að bregðast nógu hratt við og lenti aftan á vagninum með þeim afleiðingum að flytja þurfti bílstjórann á slysadeild.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, kveðst ekki vita hversu alvarleg meiðslin eru. Honum þykir líklegt að vagninn sé ónýtur.
Vagnarnir voru á akstri í vesturátt á leiðinni að Hlemmi frá höfuðstöðvum Strætós í Hesthálsi þegar slysið varð rétt fyrir klukkan 7 í morgun. Engir farþegar voru í vögnunum, sem voru merktir „Ekki á leið“. Að Guðmundar röskuðust áætlanir 1 og 2 fyrir vikið.
Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir að búið sé að fjarlægja strætisvagninn sem skemmdist illa af vettvangi og hafa viðbragðsaðilar lokið störfum.
Uppfært kl. 11.46:
Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að vagnstjórinn hafi þurft að hemla en hið rétt er að hann hægði á sér vegna vinnuvélarinnar. Þegar hann var að færa sig yfir frá hægri akrein yfir á þá vinstri lenti hinn strætisvagninn á honum, að sögn Guðmundar Heiðars.