Svæðisbundnar sóttvarnaaðgerðir hafa nú tekið gildi í Skagafirði og Akrahreppi. Þannig náðu tilslakanir sem tóku gildi á miðnætti hér á landi ekki til Skagafjarðar og Akrahrepps samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra.
Þar gilda enn 20 manna samkomutakmörk tímabundið til og með 16. maí næstkomandi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is ekki sé hægt að rekja upphaflega smitið á Sauðárkróki til sóttkvíarbrots.
Hann segir tillögur að takmörkunum sem gripið var til hafa komið frá heimamönnum, hafi verið ræddar við sig um helgina og hann verið sammála aðgerðunum. Þá hafi hann sent upplýsingar til ráðherra sem gaf úr reglugerð þess efnis að fyrri reglu myndu halda áfram í eina viku fyrir norðan.
Hann segir enn fremur að af þeim fimm sem greindust með Covid-19 innanlands í gær voru þrír staðsettir á höfuðborgarsvæðinu, einn utan sóttkvíar.
Þannig er enn smit á höfuðborgarsvæðinu sem ekki er búið að ná utan um.
Alls greindust ellefu Covid-19 smit um helgina, þar af voru átta í sóttkví við greiningu og þrjú á höfuðborgarsvæðinu.