Vegir við Guðmundarlund komu í veg fyrir að gróðureldur sem kviknaði í lundinum náði að breiða úr sér að sögn Kristins H. Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Kópavogs.
„Vegirnir eru sennilega að bjarga því sem bjargað verður. Það hefur oft verið talað um og það, og það sem vantaði í Heiðmörk voru vegirnir. Slökkviliðið gat farið eftir þessum vegum og þeir voru mjög snöggir að koma út öllum slöngum,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is, en gróðureldur geisaði í Heiðmörk 4. maí síðastliðinn og fór eldurinn yfir um 56 hektara lands.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins tók tiltölulega skamman tíma að slökkva eldinn. Slökkvilið er þó enn á vettvangi í því skyni að tryggja svæðið.
Ekki er vitað hver upptök eldsins voru, en Kristinn segir að hann hafi kviknað við bílastæði svæðisins.
Kristinn telur að skaðinn hafi ekki verið mikill.
„Við sleppum alveg fyrir horn, hefðu þessir vegir ekki verið hefði þetta haldið hér áfram inn úr. Við sleppum vel miðað við það sem hefði geta orðið.“
Fréttin hefur verið uppfærð