Verið er að rífa niður tvo samliggjandi bragga á svonefndum Hvannavallareit á Akureyri en þar ætlar Krónan að byggja nýja verslun fyrir íbúa höfuðstaðar Norðurlands og nágranna þeirra.
Krónan hefur átt lóðina í töluverðan tíma en það hefur tekið tíma að þoka skipulagsmálum áleiðis. Nýtt deiliskipulag var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar síðla árs í fyrra.
Efni úr bröggunum verður endurnýtt. Fyrirtækið GV-gröfur á Akureyri hefur umráð yfir bröggunum og eru áform um að nýta þá í starfsemi fyrirtækisns, en það sinnir verktöku. Bændur á Steinstöðum II í Öxnadal, munu nýta efni sem til fellur úr vörugeymslunni.
Eftir að lokið verður við að fjarlæga braggana má gera ráð fyrir að jarðvegsframkvæmdir hefjist og að þeim loknum verður hafist handa við að byggja verslunarhúsið. Áætlað er að framkvæmdum ljúki á næsta ári, 2022.