Breyta á inntökuskilyrðum í háskóla

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrr í dag var samþykkt á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um háskóla en breyta á inntökuskilyrðum. Samtök iðnaðarins fagna frumvarpinu.

„Það er mat Samtaka iðnaðarins að nú hafi það skref loks verið stigið að starfsnám teljist samkeppnishæft við bóknám en samtökin hafa barist fyrir því í mörg ár að staða nemenda með starfsnám og bóknám verði jöfnuð til inngöngu í háskóla,“ segir í fréttatilkynningu frá Samtökum iðnaðarins.

Jafna stöðu nemenda

„Til jafns við aðgangsskilyrðið stúdentspróf kemur aðgangsskilyrði um að nemendur hafi staðist lokapróf frá framhaldsskóla á 3. hæfniþrepi og er þá vísað til aðalnámskrár framhaldsskóla. Þessari breytingu er ætlað að jafna stöðu nemenda sem lokið hafa list-, tækni- og starfsnámi og þeirra sem lokið hafa stúdentsprófi til inngöngu í háskóla,“ segir í tilkynningunni.

Frumvarpið var samið á grundvelli tillagna í aðgerðaáætlun menntamálaráðherra til að auka áhuga ungmenna á starfs- og tæknimenntun en aðgerðaáætlunin var unnin í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert