Hver sjálfum sér næstur í eldvörnum

Skorradalur. Norðanmegin upp af vatni eru há grenitré, skæður eldsmatur.
Skorradalur. Norðanmegin upp af vatni eru há grenitré, skæður eldsmatur.

„Hér í Skorradal hafa verið tekin mörg skref í öryggisátt hvað varðar eldvarnir, þó alltaf megi vissulega gera betur. Í svona málum er þó alltaf hver sjálfum sér næstur og sterkustu forvarnirnar eru aðgæsla fólksins sjálfs sem hér í dalnum dvelst,“ segir Árni Hjörleifsson, oddviti Skorradalshrepps.

Í Morgunblaðinu í gær sagði frá hættu á gróðureldum í Skorradal sem oddvitinn telur síst meiri þar en annars staðar. Í gildi sé viðbragðsáætlun fyrir svæðið, vatnslagnir með úrtaki fyrir slökkvilið séu víða og í þorra sumarhúsa séu klöppur og ýmis varnarbúnaður.

„Fólk hefur rætt um að í eldvarnaskyni væri skynsamlegt að setja upp varnarhólf eða auð svæði milli skógarreita. Slíkt má skoða, en ég minni á að í Mýraeldum fyrir um 15 árum fór eldur yfir slíkt belti,“ segir Árni. „Þá hafa flóttaleiðir út úr dalnum verið bættar með breikkun vegarins í skógarhlíðinni inn eftir norðanverðum dalnum. Haldið verður áfram í því verkefni í sumar svo gerlegt verður fyrir ökumenn stórra bíla að mætast þar, sem áður var útilokað.“

Hreinn Óskarsson.
Hreinn Óskarsson.

Almenn skynsemi ráði

Forvarnir gegn eldsvoðum segir oddvitinn að byggist í raun á almennri skynsemi fólks. Enginn ætti til dæmis að kveikja upp í grilli nema á palli sumarhúsa og fara eigi varlega með verkfæri eins og slípirokka sem sendi frá sér glæður. Há grenitré við sumarhús sé sömuleiðis ráðlegt að fella, svo mikill eldsmatur sé í þeim.

„Að segja Skorradal vera púðurtunnu með vísan til eldhættu, eins og þessu var lýst í Morgunblaðinu, voru stór orð sem ekki bæta stöðu mála,“ segir Árni Hjörleifsson.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert