Andrés Magnússon
„Já, ég var að fá boð,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær, en hún ætlar að fara í bólusetningu í dag. „Ég ætlaði nú ekki að fara með það í fjölmiðla, en þú spurðir svo ég svara,“ segir hún og hlær.
Og ætlar þú að fara? „Já, að sjálfsögðu. Ég mæti náttúrlega þegar ég fæ boð.“
Katrín segir ákaflega mikilvægt að bólusetningin gangi vel og að sem flestir verði bólusettir sem fyrst, svo áhrifa hjarðónæmis gæti sem fyrst. Hún virðist ekki hafa áhyggjur af því að nokkru færri sinni bólusetningarboðum nú en í upphafi.
„Við höfum almennt verið að sjá mjög góða þátttöku og oft er verið að boða með skömmum fyrirvara, svo maður hefur skilning á því. En stóra verkefnið er það að hvetja fólk til þess að mæta. Það hefur auðvitað verið umræða um tiltekin bóluefni, en samt eru ótrúlega fá dæmi um að fólk hafi afþakkað bóluefni. Svo mér finnst fólk hafa kynnt sér þessi mál vel og treysta vísindunum.“