Björgunarsveit í Borgarfirði var kölluð út rétt fyrir klukkan átta í kvöld vegna konu sem slasaðist á fjallgöngu á Kvígindisfelli norðaustur af Hvalvatni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Þá segir í tilkynningunni að konan hafi hrasað í hlíðum fellsins, slasast á fæti og geti ekki gengið niður af sjálfsdáðum.
Björgunarsveitarfólk og sjúkraflutningamenn frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands eru á leiðinni á vettvang með fjórhjól og búnað til þess að hlúa að konunni og flytja hana niður.