„Hér hefur verið annasamt að undanförnu og allt á haus. Þúsundir bíla hafa farið hér í gegn síðustu vikurnar,“ segir Þórður Þrastarson, deildarstjóri á hjólbarðaverkstæðinu Kletti við Hátún í Reykjavík.
Skv. reglum eiga bílar nú að vera komnir á sumardekk og frá og með deginum í dag byrjar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að sekta ökumenn sem eru enn með bílana á negldum hjólbörðum. Sé raunin sú er sektin 20 þúsund á hvert dekk eða 80 þúsund á bílinn. – Almennt er talið að 60% bílaflotans séu á nagladekkum en 40% á heilsárshljólbörðum.
Lögreglan metur aðstæður þegar kemur að eftirliti með hjólabúnaði bíla. Detti í vetrarfærð og snjó þó komið sé langt fram í maí, eins og var á Húsavík í gær, er sektum ekki beitt. „Hér gerir enn næturfrost. Við förum samt að líta eftir dekkjum bíla á næstu dögum, en förum þó ekki í málin með látum,“ sagði Sveinn Kr. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við Morgunblaðið. sbs@mbl.is