Smitin að minnsta kosti 9 talsins

Sauðárkrókur í Skagafirði.
Sauðárkrókur í Skagafirði. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, segir að hann viti til þess að eitt smit hafi bæst við í gær í Skagafirðinum en viðkomandi hafi verið í sóttkví.

Hann veit að ekki liggur fyrir niðurstaða úr vafasýnum sem þurfti að rannsaka betur. Eins er ekki víst að niðurstaða liggi fyrir í öllum tilvikum en fjöldi fólks var skimaður í gær vegna smits sem kom upp í Skagafirði á föstudag. Alls eru staðfest smit níu talsins í Skagafirði. 

Nú eru um 400 í sóttkví og mögulega þurfi fleiri að fara í sóttkví en um leið fara væntanlega einhverjir að losna úr sóttkví þegar líður á vikuna. Sigfús er sjálfur í sóttkví en fer í skimun á fimmtudag.

Líkt og fram hefur komið greindist starfsmaður sjúkrahússins á Sauðárkróki með smit sem og nemandi við Árskóla. 

„Ég er að verða bjartsýnni á að við séum að ná utan um þetta og setja áhættuhópa í sóttkví,“ segir Sigfús Ingi í samtali við blaðamann mbl.is. 

Fólk hefur mætt vel í sýnatöku og fer eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis og almannavarna.  Íbúar Skagafjarðar hafa gætt vel að sér og með því að hægja á samfélaginu í einhvern tíma afgreiðum við þetta hraðar segir Sigfús en í Skagafirði tóku ekki nýjar sóttvarnareglur gildi í gær líkt og annars staðar á landinu. 

Aðgerðir sem eru í gildi í Skagafirði

  • Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að þær tilslakanir á samkomutakmörkunum sem taka gildi mánudaginn 10. maí samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðuneytisins muni ekki taka gildi í Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi fyrr en mánudaginn 17. maí.
  • Öllu skólahaldi í Árskóla verður aflýst frá og með mánudeginum 10. maí a.m.k. til og með föstudeginum 14. maí.
  • Leikskólinn Ársalir verður lokaður á sama tíma, nema fyrir skilgreinda forgangshópa, s.s. heilbrigðisstarfsmenn, lögreglumenn og sjúkraflutningamenn næstu viku.
  • Öll próf í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki verða heimapróf og skólinn lokaður nemendum.
  • Heimavist Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra verður rýmd eins og kostur er.
  • Sundlaugar sveitarfélagsins í Skagfirði verða lokaðar frá og með 10. maí og til og með sunnudeginum 16. maí.
  • Íþróttaæfingar yngri flokka verði óheimilar frá og með 10. maí til og með sunnudeginum 16. maí.
  • Öllum íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins verður lokað nema fyrir æfingar meistaraflokka frá og með mánudeginum 10. maí til og með sunnudeginum 16. maí
  • Íþróttakappleikir fullorðinna verða spilaðir án áhorfenda
  • Líkamsræktarstöðvar verða lokaðar frá og með 10. maí til og með sunnudeginum 16. maí.
  • Skíðasvæðinu í Tindastóli hefur verið lokað.
  • Umhverfisdagar Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem fara áttu fram 15. maí og plokk-áskorendakeppni milli fyrirtækja sem átti að hefjast í gær er frestað um óákveðinn tíma.
  • Ráðhúsið á Sauðárkróki verður lokað frá og með mánudeginum 10. maí þar til annað verður ákveðið.
  • Fundum sveitarstjórnar, nefnda og ráða sveitarfélagsins verður frestað um viku.
  • Öllum menningarviðburðum á Sauðárkóki verður aflýst frá og með 10. maí, til og með sunnudeginum 16. maí. Þar með leiksýningum, bíósýningum og öðrum viðburðum þar sem fólk safnast saman.
  • Skagafjarðarveitur og þjónustumiðstöð Skagafjarðar verða lokaðar á tímabilinu og aðeins verður opið fyrir neyðarþjónustu í gegnum síma.
  • Lágmarksþjónusta verður hjá Skagafjarðarhöfnum sem og garðyrkjudeild sveitarfélagsins á umræddu tímabili.


Jafnframt þessum aðgerðum hafa stofnanir og fyrirtæki í Skagafirði ákveðið að bregðast við með eftirfarandi hætti:

  • Afgreiðslutími Skagfirðingabúðar verður lengdur til að dreifa betur verslun og draga úr þeim fjölda sem inni er á hverjum tíma. Viðskiptavinir eru beðnir um að taka tillit til þess.
  • Bílaverkstæði, og Vélaverkstæði KS og Tengill verða lokuð frá og með 10. maí, til og með föstudeginum 14. maí. Tengill mun þó starfa eftir neyðarskipulagi fyrirtækisins næstu viku. Byggingavöruverslun KS á Eyrinni verður lokuð en afgreiðsla verður í gegnum síma.
  • Vörumiðlun mun loka afgreiðslu og jafnframt loka endurvinnslumóttöku en mun afgreiða vörur út úr húsi.
  • Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun loka afgreiðslu í þessa viku og starfsemi verður skert.
  • Byggðastofnun mun loka afgreiðslunni þessa viku og starfsemi verður skert.
  • 1238 Battle of Iceland og Grána bistro verður lokað þessa viku.
  • GrandInn Bar verður lokaður þessa viku.
  • Veitingastaðurinn Lemon verður með matsal lokaðan en selur mat út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert