„Mér fannst frábært að koma að eldgosinu,“ sagði Sæmundur Ásgeirsson í Borgarnesi. Hann gekk í Geldingadali mánudaginn 3. maí ásamt Sigurði Jóhannssyni, gömlum kunningja sínum úr skátunum og Flugbjörgunarsveitinni. Sæmundur er Reykvíkingur að uppruna og átti heima á Fornhaga 11. Þar var hann í skátafélaginu Hamrabúum, undirsveitinni Víkingunum og undirflokki sem hét Öðlingar. Þeir Sigurður gengu í Flugbjörgunarsveitina um leið og þeir höfðu aldur til.
„Ég tók með mér víkingahjálm sem ég smíðaði þegar ég var í skátunum, 16 ára gamall. Með því vildi ég vekja athygli á því að fólk ætti að vera með hjálm við svona aðstæður,“ sagði Sæmundur. En úr hverju er hjálmurinn? „Þetta er gamall blómsturpottur úr kopar frá ömmu. Ég skrúfaði á hann kýrhorn. Ég hef lánað hjálminn í mörg leikrit og uppákomur. Hann er orðinn ansi dældóttur.“
Sæmundur er 71 árs. Honum þótti gangan að gosstöðvunum ekki erfið og var ekkert eftir sig.
„Á þessum aldri fer maður bara á sínum hraða. Meðan maður hefur vit á því þá er þetta allt í lagi. Ég hef verið í útivist og göngum alla tíð. Ég var útivinnunni hjá RARIK frá því ég var 16 ára og þar til ég varð sjötugur. Flokksstjóri og svo verkstjóri nær alla tíð. Ég var einmitt í að gera við raflínurnar úti á Skaga eftir óveðrið í desember 2019. Það var eiginlega bara skemmtiferð að fá að fara með í að gera við rafmagnslínurnar. Mér þótti alltaf gaman að þessu.“ Nú er Sæmundur kominn á eftirlaun en rekur gistihús í Gamla bænum í Húsafelli og dvelur þar mikið.
Sæmundur gengur við tréstaf sem hann eignaðist þegar hann fór ásamt Ásgeiri syni sínum á skátamót í Noregi 1979. Hann sá grein við vegarkant og skar hana lausa með vasahnífnum sínum. Svo fletti hann berkinum af stafnum og hefur gengið við hann síðan. Lengi var hann með járnbrodd á stafnum en skipti svo í mýkri gúmmípúða sem grípur enn betur í grjótið en járnbroddurinn gerði.