„Það eru mannslíf í húfi“

Gróðureldur kviknaði í Grímsneshreppi í dag.
Gróðureldur kviknaði í Grímsneshreppi í dag. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, biðlar til fólks í sýslunni að fylgja tilmælum og vera ekki með opinn eld á svæðinu. Gróðureldur kviknaði í Grímsnesi fyrr í dag. 

Eldurinn kviknaði um 11:30 og hefur slökkviliði nú tekist að ráða niðurlögum hans. 

„Það lítur út fyrir að þeir séu búnir að ná að stoppa þetta. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom tvisvar sinnum til þess að ferja menn á staðinn, auk þess fór dælubíll frá Selfossi og sérstakur gróðureldabíll frá Selfossi og svo tankbíll frá Hveragerði. Við vorum með svona 20 manns sem voru að vinna í þessu,“ segir Pétur. 

Hann segir að umfang eldsins hafi ekki verið mikið og skamman tíma hafi tekið að slökkva hann. 

„Það náðist að stoppa þetta svona fljótt, en ástandið í náttúrunni er þannig núna á þessu svæði að það má hvergi slá slöku við,“ segir Pétur og bætir við að vel verði bleytt í svæðinu svo eldurinn nái sér ekki upp aftur. 

Meðferð opins elds óheimil 

Pétur hefur nú sem slökkviliðsstjóri gefið út yfirlýsingu þess efnis að öll meðferð opins elds í sýslunni sé óheimil. 

„Fyrst og fremst þurfum við að biðla til fólks að fara eftir tilmælum, vera ekki með opinn eld og kippa í hvert annað ef við sjáum að náungi okkar er að gera mistök,“ segir Pétur og bætir við: 

„Það bara gengur ekki að menn fari gáleysislega núna. Það er svo mikið í húfi, það eru mannslíf og eignir fyrir ómælt fé í húfi.“

Pétur segir að eldurinn hafi kviknað út frá suðuvinnu á svæðinu. 

„Þarna voru menn við suðuvinnu, voru að sjóða saman rör og það hleypur eldur í út frá því. Við fengum sambærilegt útkall fyrir tveimur dögum síðan þar sem verið var að vinna með slípirokk,“ segir Pétur. 

Ríkislögreglustjóri, í sam­ráði við lög­reglu­stjóra og slökkviliðsstjóra á Vest­fjörðum, Vest­ur­landi, höfuðborg­ar­svæðinu, Suður­nesj­um og Suður­landi, lýsti í dag yfir hættustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum, en lítið hefur rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir ekki úrkomu að ráði. 

Slökkviliðsmenn á leið í gróðureldaútkall í Grímsnesi nú klukkan 12:15 Ástandið í sýslunni okkar er mjög svo varasamt...

Posted by Brunavarnir Árnessýslu on Þriðjudagur, 11. maí 2021
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert