Útlit er fyrir að hættustig almannavarna, sem hefur verið lýst yfir vegna hættu á gróðureldum, muni gilda næstu þrjár vikurnar.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að miðað við langtímaspár og þau gögn sem Veðurstofan notast við sé ekki útlit fyrir að staðan breytist næstu þrjár vikurnar.
Hættustigið nær frá Breiðafirði að Eyjafjöllum. Rögnvaldur segir hættustigi áður hafa verið lýst yfir vegna gróðurelda en ekki á eins stóru svæði og núna.
Hann segir gróðurinn mjög þurran á þessu svæði og óvenjulítil úrkoma hafi verið í maí, sem venjulega sé þó rigningarlítill mánuður.
„Langtímaspá segir að við erum í þurrkatímabili, þannig að það er engin alvöruúrkoma í kortunum. Það verða einhverjar skúrir kannski um helgina og í næstu viku. Þetta þó allt mjög staðbundið og gæti gert gagn í einn til tvo daga en við erum ekki að sjá neinar langtímalausnir,“ segir Rögnvaldur.
Vegna þess hve kalt hefur verið í veðri hefur gróðurinn átt erfitt með að taka við sér. Útskipting á sinu og grónu landi sem brennur ekki eins vel er ekki að gerast nógu hratt. Hann segir gróður vera almennt að aukast og beit að minnka og spilar það einnig inn í stöðu mála varðandi aukinn sinueld.
Samkvæmt hættustiginu er bannað að vera með opinn eld á svæðinu. Ef fólk vill fara út og hittast í gróðurvin hvetur Rögnvaldur það til að taka með sér nesti frekar en að reyna að grilla.
Hann ráðleggur fólki í sumarbústöðum einnig að fara inn á síðuna grodureldar.is. Þar er að finna leiðbeiningar til að minnka líkurnar á að sina breiðist út í nágrenninu. Best sé að fólk noti ekki eldstæði, kamínur eða grill.