Árásum beint að bráðaliðum

AFP

Undanfarna daga hafa almennir borgarar í Palestínu og Ísrael slasast og týnt lífi, þar á meðal börn. Bráðaliðar Rauða hálfmánans í Palestínu hafa orðið fyrir árásum, verið meinaður aðgangur að særðum og skemmdir hafa verið unnar á sjúkrabifreiðum félagsins. Rauði krossinn á Íslandi lýsir yfir þungum áhyggjum af ofangreindu og fordæmir öll brot á mannúðarlögum.

„Rauði krossinn á Íslandi harmar undir öllum kringumstæðum ofbeldi og átök sem bitna á óbreyttum borgurum og fordæmir brot á alþjóðlegum mannúðarlögum. Slík lög kveða meðal annars á um að heilbrigðisstarfsfólk, sem hjálpar þolendum vopnaðra átaka, verði að geta unnið starf sitt og leggja bann við árásum á sjúkrabíla og húsnæði þar sem særðum er hjúkrað,“ segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.

„Það er grundvallaratriði að særðir fá aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Rauði krossinn á Íslandi tekur því undir ákall Alþjóðaráðs Rauða krossins sem hvetur viðeigandi stjórnvöld til að lægja öldur og virða alþjóðleg mannúðarlög með því að tryggja skjótan, öruggan og óhindraðan aðgang sjúkrabifreiða, heilbrigðisstarfsfólks og sjálfboðaliða. Þá minnir Rauði krossinn alla aðila á að virða ber grundvallaatriði mannúðarlaga þar sem beinar árásir á óbreytta borgara eru bannaðar og áhersla lögð á að gæta beri ýtrustu varúðar til að forðast mannfall almennra borgara,“ segir í tilkynningu. 

AFP

Í hartnær tuttugu ár hefur Rauði krossinn á Íslandi verið í sambandi við Rauða hálfmánann í Palestínu. Áhersla samstarfsverkefna félaganna tveggja hefur verið að auka áfallaþol og viðnámsþrótt palestínska samfélagsins og bæta geðheilsu íbúa landsins.

„Rauði hálfmáninn hefur þjálfað hundruð sjálfboðaliða til að veita sálfélagslegan stuðning þegar áföll dynja yfir auk þess sem félagið veitir ýmis konar þjónustu við fólk sem þjáist vegna hernámsins. Þá fá börn sérstaka aðstoð í hópum með jafnöldrum sínum og ungmennum er gefinn kostur á að starfa sem sjálfboðaliðar og fá þannig margvíslega þjálfun sem eflir þau og hvetur til jákvæðrar samfélagslegrar þátttöku.

Rauði krossinn á Íslandi hefur nú sett af stað sérstaka söfnun svo halda megi áfram þessum  stuðningi og er hægt að kynna sér það betur hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert