Antony J. Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, munu funda í Reykjavík í þann 20. maí næstkomandi í af tilefni ráðherrafundi Norðurskautsráðsins.
Þetta staðfestir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Íslands, við mbl.is.
Hann segir að fundurinn verði sögulegur og að Höfði, þar sem Reagan Bandaríkjaforseti og Gorbastjov, leiðtogi Sovétríkjanna, hittust árið 1986, komi vel til greina sem fundarstaður.
„Þetta er fagnaðarefni. Það má alltaf búast við því að eitthvað gott komi út úr svona fundum, sérstaklega þegar utanríkisráðherrar ríkja hittast augliti til auglitis,“ segir Guðlaugur.
„Það liggur alveg fyrir að Höfði stendur til boða,“ bætir hann við.
Allflestir Íslendingar annað hvort muna eftir eða hafa heyrt um leiðtogafundinn í Höfða 1986, þegar Reagan Bandaríkjaforseti og Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, hittust og ræddu saman. Það er gjarnan sagt hafa verið upphafið að endalokum kalda stríðsins.
Við sama tilefni hittust utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Sóvétríkjanna, hinn nýlátni George Shultz og Eduard Ambrosiyevich Shevardnadze, í Höfða.
„Við höfum komið því skýrt á framfæri að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að þessi fundur verði sem farsælastur. Það er auðvitað sögulegt að utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands hittist hér í Reykjavík,“ segir utanríkisráðherra.