Bókunum fjölgar um nær helming í borginni

Nýtt hótel við Austurvöll. Framboðið vantar ekki.
Nýtt hótel við Austurvöll. Framboðið vantar ekki. mbl.is/Árni Sæberg

Bókunarstaða hótela á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið mikinn kipp frá í apríl. Bókunum fyrir októbermánuð fjölgar um nær helming milli mánaða. 48% gistirýma eru bókuð í október en í apríl var búið að bóka 26% þeirra.

Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu, sem fylgist að sögn náið með bókunarstöðunni til að meta komandi mánuði í ferðaþjónustu.

Þar er tekið fram að frá mars á síðasta ári hafi sú þróun verið ríkjandi, að því nær sem dragi bókaðri gistinótt þeim mun meiri líkur eru á að hún verði afbókuð.

Munur á bókunarstöðu mánaða í apríl og maí.
Munur á bókunarstöðu mánaða í apríl og maí. Graf/Ferðamálastofa

Þróunin snýst við

Sést það glögglega á grafinu hér að ofan, hvernig bókunarstaðan er fyrir maí og júní, annars vegar í upphafi apríl og í upphafi maí.

Athygli vekur að þessi þróun snýst við, enn sem komið er, þegar horft er til júlímánaðar. Í öllum mánuðum þar eftir fjölgar bókunum sömuleiðis á milli mánaða.

„Ef bólusetning heldur áfram með sama dampi og undanfarnar vikur má gera ráð fyrir að frekara líf færist í seinnipart sumars og haustmánuði fyrir íslenska ferðaþjónustu,“ segir á vef Ferðamálastofu.

Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir meiri nýtingu gistirýma en raunin varð á síðasta ári, eins og sjá má á grafinu hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert