Frá neyðarstigi niður á hættustig

Víðir Reynisson á fundinum í morgun.
Víðir Reynisson á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnarlækni, hefur ákveðið að lækka almannavarnastig vegna Covid-19 frá neyðarstigi niður á hættustig.

Þetta kemur fram í tilkynningu en Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn greindi frá þessu á upplýsingafundi almannavarna í morgun.

Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir 24. mars síðastliðinn þegar ný reglugerð tók gildi og tíu manna fjöldatakmörkun varð meginreglan, vegna hópsýkinga innanlands. 

Þar sem vel gengur að ná niður smitum í samfélaginu fer almannavarnarstigið niður á hættustig. Þessi aðgerð hefur í raun ekki áhrif á daglegt líf almennings. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnalæknir og stýrihópur um verkefni sem snýr að Covid-19, mun áfram fylgjast með þróun faraldursins og taka ákvarðanir miðað við framvindu hans.

Frá því að neyðarstigi var fyrst lýst yfir, 6. mars 2020, hafa 6144 smit verið staðfest, 48.528 einstaklingar lokið sóttkví og 622.370 sýni verið tekin innanlands og á landamærum. Tuttugu og níu einstaklingar hafa látist vegna Covid-19.

Í dag eru 62.276 íbúar á Íslandi fullbólusettir eða 27.9% þjóðarinnar (16 ára og eldri).

Frá bólusetningu við kórónuveirunni í síðustu viku.
Frá bólusetningu við kórónuveirunni í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert