Hildur stefnir á 3.-4. sæti

Hildur Sverrisdóttir.
Hildur Sverrisdóttir. Ljósmynd/Margrét Seema Takyar

Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður og aðstoðarmaður ráðherra, hefur tilkynnt um framboð sitt í 3. - 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Hildur er 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður. Hún hefur áður sinnt störfum sem borgarfulltrúi og þingmaður og starfar í dag sem aðstoðarmaður ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra. Auk þess hefur Hildur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, m.a. sem núverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að því er segir í fréttatilkynningu. 

„Í hinum mismunandi störfum mínum á ólíkum sviðum stjórnmálanna hef ég séð að stjórnmál skipta raunverulegu máli og hvernig á þeim er haldið. Ég hef beitt mér fyrir frelsi fólks til að haga lífi sínu eftir eigin höfði, að athafnasemi og hugmyndaauðgi sé tekið fagnandi og að staðreyndir og heildarhagsmunir eigi að vera í forgrunni ákvarðana. Frelsismál; einstaklingsfrelsið, skoðanafrelsi, frelsi í atvinnulífinu, kynfrelsi og tjáningarfrelsi hafa verið mér hugleikin og verða áfram forsendur og mælikvarði alls sem ég geri. 

Öflugt atvinnulíf er mikilvægasta forsenda þess að við getum gert það sem okkur ber skylda til; tryggja tækifæri og menntun og hlúa að þeim sem þurfa aðstoð. Því er brýnt að á komandi kjörtímabili sé staðinn vörður um kröftuga viðspyrnu í kjölfar efnahagsáfalla og heimsfaraldurs. Ég tel að ég geti komið að gagni við þessi verkefni á Alþingi og óska eftir stuðningi í 3. - 4. sæti í komandi prófkjöri, sem skili mér í annað sætið í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna í mikilvægum kosningum framundan." 

Hildur er fædd árið 1978 og lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2008 og hlaut lögmannsréttindi árið 2009. 

Hún skrifaði um árabil bakþanka í Fréttablaðið og ritstýrði bókinni Fantasíur, um kynferðislegar fantasíur íslenskra kvenna, sem kom út sumarið 2012.

Hildur starfaði sem lögfræðingur og lögmaður hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365. Með laganámi starfaði hún sem framkvæmdastjóri V-dagsins gegn kynferðisbrotum. Hún starfaði einnig sem framkvæmdastjóri Reykjavík Dance Festival og gegndi stöðu framkvæmdastjóra Jafningjafræðslunnar fyrir ÍTR og menntamálaráðuneytið. Hildur hefur einnig starfað erlendis, meðal annars á lögmannsstofunni Ambrose Appelbe í London og í flóttamannabúðum í Serbíu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert