„Hraunrennslið hefur farið vaxandi síðustu vikur,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við HÍ um eldgosið í Geldingadölum. Hann segir að líklega hafi gosrásin víkkað sem valdi auknu hraunflæði.
Takturinn í kvikustrókavirkninni hefur breyst. Þorvaldur telur að kúturinn efst í gosrásinni undir gígopinu sé sennilega að stækka og það hafi áhrif á takt strókanna.
Yfirfallið úr gígnum er vel sýnilegt og boðaföll af hrauni flæða þar yfir þegar strókarnir koma. Auk þess er lokuð rás undir yfirborðinu þar sem hraun streymir frá gígnum jafnt og þétt og fæðir hraunána. Hún nær í gegnum ónefnda dalinn og niður í Meradali. Eins er að bætast í hraunið í Geldingadölum og er það að teygja sig í átt að næstu dæld fyrir sunnan þá sem er að fyllast. Hraunframleiðslan deilist því á þrjá staði.
Í fyrrinótt kom undanhlaup úr suðurjaðri hraunsins í nafnlausa dalnum. Hraunið er nálægt því að renna í Nátthaga. Það gæti mögulega gerst í næstu viku. Á sunnudag urðu yfirhlaup úr hraunánni í nafnlausa dal og heit og þunnfljótandi kvikan myndaði helluhraun. Um leið skreið hraunjaðarinn í Meradölum fram um fjóra metra á klukkustund og myndaði apalhraun. gudni@mbl.is