Um tíma í lok apríl og byrjun maí bar nokkuð á aðmírálsfiðrildum á sunnanverðu landinu. Er það óvenju snemmt fyrir slíkan fjölda, að sögn Erlings Ólafssonar skordýrafræðings.
Á sama tíma voru suðrænar svölur flögrandi hér; landsvölur, bæjarsvölur og bakkasvala.
„Aðmírálarnir hafa væntanlega nýtt sér sama meðbyrinn úr suðrinu hingað norður í höfin. Það fjaraði fljótt undan þessum skrautlegu fiðrildum þar sem ríkjandi hitastig hefur ekki verið þeim hagsælt til flugs og athafna,“ segir Erling.
Samkvæmt því sem fram kemur á pödduvef Náttúrufræðistofnunar finnst aðmírállinn víða um heim og á sér föst heimkynni í Suður-Evrópu. Hann er mikill fluggarpur með ríkt flökkueðli, segir þar. „Aðmíráll er tíður og væntanlega árlegur gestur á Íslandi sem fyrst er skráður héðan árið 1901. Stundum berst hingað umtalsverður fjöldi og skrautleg suðræn fiðrildin vekja þá verðskuldaða athygli á sólríkum sumardögum, ekki síst á sunnanverðu landinu.