Skólahald mun mögulega ekki hefjast í þeim rýmum Háskóla Íslands þar sem upp kom vatnstjón fyrr á árinu, fyrr en í fyrsta lagi á nýju ári, að sögn rektors. Endurbætur hafa tafist vegna þess að enn þarf að komast að niðurstöðu um hver skuli bæta tjónið. Rektor vill að sátt náist um málið, en segir jafnframt að háskólinn muni sækja málið fari í hart.
„Það er ekki alveg ljóst hver tímalínan er. Við erum enn að bíða eftir niðurstöðu dómskvaddra matsmanna og þegar hún liggur fyrir kemur í ljós hve mikið tjónið er og þá þarf bara að greiða úr því hver borgunaraðili þessa tjóns er, þannig staðan er svolítið flókin,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við mbl.is, spurður að því hvenær kennsla muni hefjast að nýju á tjónsvæðinu.
„Þetta hefur dregist og það er ólíklegt að við getum byrjað að kenna í þessum stofum í haust, af því það við búumst ekki við því að geta hafið endurbætur, endurbætur sem augljóslega þurfti að ráðast í strax eins og rífa upp gólfteppi og annað slíkt. Þannig við getum ekki hafið endurbætur fyrr en væntanlega í ágúst svo mikið hefur þetta tafist, en við erum nokkuð örugg um að við getum byrjað að kenna þarna strax í janúar á nýju ári.“
Jón Atli segir ennfremur að vatnstjónið hafi verið gríðarlegt áfall fyrir háskólann. Háskólatorg og Gimli urðu verst úti, byggingarnar sem sjá má til vinstri við aðalbyggingu háskólans ef horft er frá Vatnsmýri.
„Við reynum að hraða þessu eins og hægt er en þetta lítur ekkert vel út. Eins og í Gimli, þar sem stjórnsýsluskrifstofur félagsvísindasviðs eru til húsa, þar því miður er útlitið ekki gott og þetta er bara mikið áfall fyrir háskólann.
Þetta er utanaðkomandi vandi, þetta flæðir bara inn í háskólann. Það þarf bara að skýra út hvert tjónið er og hverjir bera ábyrgð á því, og það er það sem þessir dómskvöddu matsmenn þurfa að skýra.“
Þannig þetta verður rekið bara fyrir dómstólum, eða hvað?
„Það væri best að ná sátt um málið og við vonumst eftir því að aðilar viðurkenni það, en við munum sækja þetta og það er ekkert lítið sem fór þarna til spillis. Við þurfum að fá þetta bætt.“