Segja „menningarslys“ í uppsiglingu í kirkjunni

Mótettukór Hallgrímskirkju syngur hér á jólatónleikum.
Mótettukór Hallgrímskirkju syngur hér á jólatónleikum. mbl.is/Árni Sæberg

Tónskáldafélag Íslands segir tónskáld furða sig á þróun tónlistarmála í Hallgrímskirkju. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum mun Mótettukórinn senn hverfa frá Hallgrímskirkju, rétt eins og stjórnandi hans, Hörður Áskelsson. 

Hörður sagði í upphafi mánaðar að síðastliðin þrjú ár hefði list­astarf Hall­gríms­kirkju „búið við vax­andi mót­byr frá for­ystu safnaðar­ins sem smám sam­an hef­ur rænt mig gleði og starfs­orku“.

Í dag var haldinn aðalfundur hjá Tónskáldafélagi Íslands sem harmar þróunina og biðlar til stjórnenda að afstýra því „menningarslysi“ sem virðist vera í uppsiglingu. 

„Kirkjan hefur verið í fararbroddi í sönglífi þjóðarinnar síðustu fjörutíu árin, og undir forystu kantors kirkjunnar, Harðar Áskelssonar, hefur þar verið byggt upp tónlistarstarf sem helst á sér hliðstæður við það sem best gerist meðal þjóðanna sem við berum okkur saman við. Nú hefur sóknarnefnd kirkjunnar leyst upp þetta starf með þeim afleiðingum að kantor kirkjunnar hættir störfum og kórar kirkjunnar hverfa á braut,“ segir í ályktun félagsins og jafnframt: 

„Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands harmar þessa þróun og vísar því til yfirstjórnenda kirkjunnar að þeir grípi í taumana og komi í veg fyrir það skelfilega menningarslys sem hér hefur verið í uppsiglingu. Menningarstarfið í Hallgrímskirkju varðar Íslendinga alla og er það krúnudjásn í starfi þjóðkirkjunnar sem sú stofnun má síst vera án. Íslensk tónskáld þakka listafólki Hallgrímskirkju fyrir gefandi og skapandi samvinnu á síðustu áratugum með von um að samstarfið haldi áfram um ókomna framtíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert