Starfsmenn á Kleppi lýsa ömurlegum aðstæðum

Öryggis- og réttargeðdeild Landspítalans að Kleppi.
Öryggis- og réttargeðdeild Landspítalans að Kleppi. mbl.is/Árni Sæberg

Embætti landlæknis skoðar nú alvarlegar athugasemdir sem gerðar hafa verið við rekstur og starfsemi öryggis- og réttargeðdeilda Landspítalans á Kleppi. Þær ábendingar sem embættinu hefur borist lýsa meðal annars ofbeldi, lyfjaþvingunum, ógnarstjórnun og miklum samskiptavanda, eins og segir í frétt RÚV um málið. 

Þar segir einnig að embættið hafi farið í vettvangsferðir á öryggis- og réttargeðdeild og að Landspítalinn hafi tekið viðtöl við starfsmenn. 

Geðhjálp tók nýlega saman greinargerð um málið, í samvinnu við fyrrverandi og núverandi starfsmenn á Kleppi, og sendi á Landlækni þar sem aðstæðum er lýst. 

Sjúklingar og starfsfólk beitt ofbeldi

Meðal þess sem starfsfólk lýsir er þrúgandi andrúmsloft á vinnustaðnum, mikil starfsmannavelta vegna þess, þvinguð lyfjagjöf og jafnvel vinnubrögð við meðhöndlun sjúklinga sem varðað gætu við lög.

Mikið um fjötranir með geðrofslyfjum. Ekki hikað við að gefa nauðungarsprautur með geðrofslyfjum með meðfylgjandi gríðarlegri vanlíðan fólks. Ég man eftir þegar það komu nemar frá að mig minnir Borgarholtsskóla og fylgdust spennt með í myndavélakerfinu þegar deildarstjóri og þáverandi aðstoðardeildarstjóri ásamt varnarteymi sprautuðu sjúkling. Sjúklingur var ekki látinn vita að það væri hópur utanaðkomandi fólks að fylgjast með í myndavélunum,“ er meðal annars haft eftir einum starfsmanni á Kleppi í greinargerð Geðhjálpar. 

Því er svo lýst hvernig nauðungarsprautanir eru nær daglegt brauð á Kleppi og að margar þeirra séu ekki skráðar, eins og lög um réttindi sjúklinga kveða á um að sé gert. 

Einnig er því lýst að sjúklingar séu beittir refsingum og líkamlegu ofbeldi auk þess sem starfsfólk lýsir því að hafa orðið fyrir árásum af hálfu sjúklinga. Við slíkum tilvikum er, að sögn starfsfólks, lítið brugðist, ekkert utanumhald og enginn stuðningur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka