Úttekt séreignar og fleiri úrræði samþykkt

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framhald og rýmkun viðspyrnu- og lokunarstyrkja, útgreiðsla séreignarsparnaðar, sérstakur barnabótaauki og fleiri aðgerðir til verndar og viðspyrnu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru voru samþykktar á Alþingi í gær.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði á dögunum fram frumvörp sem hafa að markmiði að styðja við einstaklinga og rekstraraðila á lokametrum baráttunnar við heimsfaraldurinn, sem Alþingi hefur nú samþykkt, að því er greint er frá í tilkynningu.

Heimilt að taka út séreignarsparnað allt þetta ár

Heimilað var að nýju að taka tímabundið út ákveðinn hluta af séreignarsparnaði, en gripið var til sambærilegrar heimildar snemma í faraldrinum sem gilti út árið 2020. Til að mæta áhrifum faraldursins, sem hafa varað lengur en gert var ráð fyrir í fyrstu, var ákveðið að endurnýja heimildina.

Hægt verður að taka út séreignarsparnað til eigin nota út árið 2021 og eru sömu viðmið um fjárhæðir og tímabil og giltu á árinu 2020. Hámarksútgreiðsla er 12 milljónir króna yfir 15 mánaða tímabil og útgreiðsla hvers mánaðar nemur að hámarki 800 þúsund krónum.

Samþykkt var að framlengja og rýmka úrræðið um viðspyrnustyrki. Nú þegar hafa um 3.200 umsóknir borist um styrkina og ríflega 3,1 milljarður króna hefur verið greiddur út.

Í nýjum lögum um styrkina kemur fram að rekstraraðilar sem hafa vegna heimsfaraldursins orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu frá 1. nóvember 2020 til og með 30. nóvember 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geta fengið styrk. Lágmarks tekjufall hefur hingað til verið 60%, en lækkaður þröskuldur gildir afturvirkt til nóvember 2020, segir m.a. í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert