Smáforritið SparAustur, sem veitti notendum ýmiss konar vildarkjör og afslætti af verslun og þjónustu á Austurlandi, hefur fengið allsherjaryfirhalningu og er nú Austurlands-appið, með yfirlit yfir þjónustu, verslun, viðburði, laus störf og húsnæði á sölu á Austurlandi, svo eitthvað sé nefnt.
Í appinu nýja má einnig finna upplýsingar um ferðaleiðir og tillögur að ferðalögum á Austurlandi.
Jónína Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segist í samtali við mbl.is benda sérstaklega á atvinnuauglýsingar í appinu, þar sem af nógu sé að taka.
Hún segir að nýja appið sé einnig hugsað sem gátt inn í landshlutann þar sem fólk, sem til dæmis hefur áhuga á að setjast að, getur nálgast grunnupplýsingar til að mynda um húsnæði og atvinnu.
„Appið sýnir með mjög skýrum hætti hvað afþreying og þjónusta er ótrúlega fjölbreytt á svæðinu. Við leggjum mikið upp úr því að gera okkar landshluta aðlaðandi fyrir Íslendinga sem útlendinga,“ segir Jónína.
Appið er gjaldfrjálst og opið öllum.