Sóknarnefnd Hallgrímssafnaðar harmar að Hörður Áskelsson, organisti kirkjunnar, hafi óskað eftir starfslokasamningi í stað þess að gera heiðurslaunasamning við kirkjuna sem honum stóð til boða.
Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi sóknarnefndar 11. maí.
Þar segir að heiðurslaunasamningur hefði falið í sér starfsaðstöðu og fjármuni fyrir Hörð til þess að vinna með kórum í Hallgrímskirkju að þremur stórum verkefnum auk annarra viðfangsefna næstu tvö ár.
Hörður sagði upp starfi sínu í byrjun mánaðar og sagði þá að síðastliðin þrjú ár hefði listastarf Hallgrímskirkju „búið við vaxandi mótbyr frá forystu safnaðarins sem smám saman hefur rænt mig gleði og starfsorku“.
Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands fór fram í gær og sagðist félagið þá harma þróun tónlistarmála í Hallgrímskirkju.
Í ályktun sóknarnefndarinnar eru Herði auk þess „þökkuð áratuga störf sem hafa auðgað tónlistarlíf kirkju og þjóðar og skilað mikilvægum tónlistararfi“.