Kjartan Magnússon hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar í haust. Kjartan óskar eftir stuðningi í 3.-4. sæti í prófkjörinu, sem fram fer helgina 4. og 5. júní.
Kjartan varð borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1999 og sat í borgarstjórn til ársins 2018. Hann var í borgarráði síðari hluta þess tíma, formaður Menntaráðs og Íþrótta- og tómstundaráðs og var um hríð stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.
Undanfarin ár hefur Kjartan starfað á vegum Evrópuráðsins í Strassborg, þar sem hann gegndi framkvæmdastjórastörfum stjórnarnefndar hjá Héraðs- og sveitarstjórnaþingi Evrópuráðsins, sem Ísland á aðild að.
Kjartan er 53 ára gamall Reykvíkingur og á þrjú börn.