Málflutningur Karls Péturs „í besta falli hlægilegur“

Búið er að ná algjörum tökum á grunnrekstri bæjarins, að …
Búið er að ná algjörum tökum á grunnrekstri bæjarins, að sögn Magnúsar Örns. Haraldur Jónasson/Hari

„Bókun Karls Péturs [Jónssonar bæj­ar­full­trúa Viðreisn­ar/​Neslista] er best lýst sem þvælu.“

Þetta segir Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness, við mbl.is og vísar til bókunar minnihlutans í bæjarstjórn þar sem meirihlutinn er sakaður um óábyrga fjármálastjórn.

„Þetta var eins og í leikhúsi á bæjarstjórnarfundi í gær. Málflutningurinn sem maður sat undir var í besta falli hlægilegur.“

Greint var frá bókun Karls Péturs á mbl.is í gærkvöldi, en þar kallaði hann niðurstöðu ársreiknings bæjarins fyrir árið 2020 „sorglega“ og „fyllilega á ábyrgð meirihluta bæjarstjórnar.“ Þá kallaði hann Seltjarnarnes „skattaparadís.“

Skattahækkun ekki inni í myndinni

Magnús Örn segir meginskýringuna á hallarekstri bæjarins vera mikla hækkun lífeyrisskuldbindingar, sem stóð í 226 milljónum króna. „Við héldum að hún yrði um 100 milljónir.“

Ástæða þessarar hækkunar eru há laun og lífaldur á Seltjarnarnesi. Magnús Örn segir það þó glórulaust að hækka skatta í miðjum veirufaraldri, eins og Karl Pétur virðist hafa viljað gera.

Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs Seltjarnarnesbæjar.
Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs Seltjarnarnesbæjar.

„Engum, ekki einu sinni vinstri mönnum, datt í hug að hækka álögur í því ástandi sem nú ríður yfir. Það hvarflaði ekki að okkur,“ segir Magnús Örn. „Við tókum ákvörðun um að fara ekki í niðurskurð vegna kórónuveirunnar og bættum frekar í stuðninginn, og felldum niður leikskólagjöld til dæmis. Út úr þessu kemur halli upp á sirka 170 milljónir.“

„En þegar maður tekur þetta frá þá er grunnrekstur bæjarins í fullkomlega góðu lagi,“ segir hann.

Þannig hafi bænum tekist að greiða niður skuldir sínar og ekki tekið nein ný lán. Nettófjárfestingar hafi numið 250 milljónum króna.

Þriðja hæsta útsvar á landinu

„Á sama tíma er verið að ausa á okkur ómálefnalegri gagnrýni, og það stendur ekki steinn yfir steini hjá minnihlutanum. Það eina sem þau vilja gera er að hækka skattana og tala um einhverja skattaparadís hér,“ segir Magnús Örn.

„Ég hef náttúrulega bent á það á móti að við erum með svo háar tekjur á Seltjarnarnesi að við erum raunverulega að borga þriðja hæsta útsvar í krónum á landinu.“

Þetta sést á því að Seltirningar borga 723 þúsund krónur á mann árlega, í samanburði við t.d. Reykvíkinga sem greiða 671 þúsund á mann samkvæmt nýjustu árbók sveitarfélaga.

Þá séu langtímaskuldir bæjarins að mestu tilkomnar vegna byggingu hjúkrunarheimilis sem ríki borgar stærstan hluta af og fimleikahúss sem Reykjavíkurborg greiðir að mestu. Seltjarnarnes á þó bæði húsin.

„Svo síðasta ár kemur alveg gríðarlega vel út, burtséð frá þessari hækkun lífeyrisskuldbindingar og Covid-kostnaðinum. Við erum mjög ánægð með hvernig útkoman er á þessu erfiða ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert