Ræða við Krónuna og Samkaup um verslun í Vogum

Vogar á Vatnsleysuströnd.
Vogar á Vatnsleysuströnd. mbl.is/Árni Sæberg

Sveitarfélagið Vogar hefur fest kaup á verslunarhúsnæði í bænum og leitar nú að áhugasömum rekstraraðilum. Verslunin í Vogum var starfrækt í þessu sama húsnæði en hún lokaði fyrr á þessu ári. Húsið telur tæpa 140 fermetra en sjálfsafgreiðslustöð N1 er staðsett á sömu lóð.

Að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra Voga, eru viðræður hafnar við nokkra aðila. Meðal þeirra eru Krónan sem rekur dagvöruverslanir undir eigin nafni en einnig verslanirnar Kr. í Vík og Þorlákshöfn. Þá eru viðræður hafnar við Samkaup sem rekur verslanirnar Nettó, Kjörbúðina, Krambúðina og Iceland.

Ásgeir segir það mikilvægt fyrir bæjarbúa að geta keypt dagvöru í nærumhverfi sínu. Sem stendur er enginn söluaðili í bænum og því sé það hlutverk sveitarfélagsins að liðka fyrir slíkum rekstri. Þá segir hann verslun innan bæjarmarka til þess fallna að fækka akstursferðum Vogamanna og minnka þannig kolefnisspor sveitarfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert