Slysagildran vonandi úr sögunni

Björgunarsveitarmenn hafa margoft verið kallaðir til að hjálpa fólki eftir …
Björgunarsveitarmenn hafa margoft verið kallaðir til að hjálpa fólki eftir slys í brattri brekku á gönguleiðinni að gosstöðvunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákveðið var að loka gönguleiðinni að gosstöðvunum í Geldingadölum í gær vegna framkvæmda á svæðinu, og gengu þær eins og í sögu að sögn Gunnars Schram, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Suðurnesjum.

Ráðist var í framkvæmdirnar vegna alræmdrar slysagildru á svæðinu, brattrar brekku á leið upp að gosi.

„Meginhluti slysa átti sér stað í þessari brekku,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is, en lausamöl og sandur í brattanum gerir mörgum erfitt fyrir.

„Fólk var að misstíga sig, togna og jafnvel fótbrotna. Síðastliðinn laugardag ökklabrotnuðu tveir í henni.“

Tókst að opna aftur í gærkvöldi

Loka þurfti allri gönguleiðinni til að hleypa vinnuvélum að, svo hægt væri að gera brekkuna skæðu greiðfærari. Það tókst á mettíma í gær, og var búið að opna leiðina aftur um kvöldmatarleytið.

„Þetta gekk betur en við vonuðumst til. Nú ætti slíkum óhöppum hjá göngufólki að fækka töluvert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert