Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu og björgunarsveitir voru við störf á Esjunni nú undir kvöldmatarleytið. Þýsk ferðakona hafði slasað sig og treysti sér ekki til þess að ganga ein síns liðs niður aftur.
Að sögn varðstjóra slökkviliðs voru aðgerðir á vettvangi nokkuð umfangsmiklar, en ekki er hlaupið að því að sækja fólk í fjallendi eins og á Esjunni. Þá var konan nokkuð hátt uppi í fjallinu, ofan Steins, og þurfti að flytja hana niður fjallið á börum með handafli, þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar hefði ekki getað athafnað sig á vettvangi.
Ferðakonan var ekki alvarlega slösuð að sögn varðstjóra, aðeins bólgin á fæti þó og treysti sér ekki niður sjálf eins og fyrr segir.